Ýmsum ráðum var beitt til að safna fé til byggingar Hallveigarstaða, svo sem að halda dansleiki. Alþýðublaðið, 22. júní 1946.

Konur á Íslandi hófu að safna fyrir sérstöku kvennaheimili skömmu eftir að þær fengu kosningarétt, á öðrum áratug síðustu aldar. Á aðalfundi Bandalags kvenna í Reykjavík í nóvember 1919 hafði Laufey Vilhjálmsdóttir framsögu um byggingu húss sem myndi hýsa félög kvenna.

Draumur um hús kvenna

Það tók hartnær hálfa öld að safna fyrir byggingu þessa húss, Kvennaheimilisins Hallveigarstaða sem nú stendur á Túngötu 14. Árið 1923 gaf Alþingi lóð á Arnarhólstúni til að byggja kvennaheimili, en það dróst að afhenda hana og hún var að lokum dregin til baka. Að lokum var afhent lóð undir Kvennaheimili við Lindargötu og ætlaði húsameistari ríkisins ætlaði að teikna húsið endurgjaldslaust, en við það loforð stóð Alþingi ekki. Árið 1925 var hafist handa við að safna fjármagni út um allt land fyrir húsið.

1931 var kvennaheimilinu gefið nafnið Hallveigarstaðir, nefnt í höfuðið á fyrstu landnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur. Hallveigarstaðir áttu að vera miðstöð sem allar konur á Íslandi ættu aðgang að.

Þar áttu að vera 50 til 60 herbergi fyrir utanbæjarstúlkur sem gætu dvalið þar til lengri eða skemmri tíma vegna náms og starfa. Nokkrar einstaklingsíbúðir áttu að vera þar líka, kennsluaðstaða, skrifstofur kvennasamtaka, bókasafn Lestrarfélagskvenna, lestrarsalur og leiðbeiningastöð heimilanna. Þá átti í húsinu að vera hússtjórnarkennsla og mat- og kaffisala.

Konur í Vestur-Íslandi tóku dyggan þátt í söfnun til byggingar Hallveigarstaða. Þegar húsið var opnað 1967, gáfu vestur-íslenskar konur Hallveigarstöðum forláta flygil, sem enn stendur í samkomusal hússins. Alþýðublaðið, 25. nóvember 1926.

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir

Árið 1934 var félögunum afhentar tvær lóðir við gatnamót Túngötu og Garðastrætis í stað lóðarinnar á Lindagötu, og staðsetning Hallveigarstaða var þá loks komin. Fjársöfnin hélt áfram næstu tvo áratugina og 1953 var hafist handa við að teikna húsið, og var það Sigvaldi Thordarson sem teiknaði húsið. Sigvaldi lést áður en húsið var reist, og Skarphéðinn Jóhannsson arkítekt lauk við starfið. Hallveigarstaðir opnuðu dyr sínar 19. júní 1967.

Vegna fjárhagsörðugleika var starfsemi hússins ekki sú sama og upphaflega stóð til. Rekstur hússins var mjög erfiður fyrstu árin, og þurfti því frá upphafi að leita til leigjenda til að leigja aðsetur í húsinu. Kvenskátar, Húsmæðrafélag Reykjavíkur, Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið voru fyrstu leigjendur í húsinu, og í kjölfarið flutti Borgardómaraembættið einnig inn.

Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands eiga og reka húsið í dag. Félögin sjá til þess að Hallveigarstaðir séu aðsetur kvennasamtaka og að rekstur hússins styrki þá menningar- og mannúðarstefnu sem kvennasamtök gangist fyrir. Í dag er fjölbreytt flóra samtaka kvenna sem nú hefur aðsetur í húsinu.

Frekari heimildir

Björg C. Þorláksdóttir hélt erindi á fundi hluthafa í hlutafélaginu Hallveigarstaðir árið 1927, þar sem hún fjallaði um hverju Hallveigarstaðir væru nauðsynjamál kvenna. Erindi hennar var prentað í tímaritinu 19. júní í nóvember það ár. Smellið hér til að lesa erindi Bjargar um Hallveigarstaði.

Þórey Guðmundsdóttir tók saman sögu Kvennaheimilisins Hallveigarstaða fyrir 90 ára afmælisrit Bandalags kvenna í Reykjavík. Smellið hér til lesa grein Þóreyjar um sögu Hallveigarstaða.